Lög Rjúkanda

1.gr.

Samtökin heita Rjúkandi, samtök um vernd náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi á Ströndum.
Heimili þeirra og varnarþing er í Árneshreppi á Ströndum.

2. gr.
Markmið samtakanna er að vera málsvari verndunar náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi á Ströndum.

3. gr.
Markmiðum sínum hyggjast samtökin ná með því að:
* Efla vitund almennings – einkum íbúa Árneshrepps – um gildi náttúrunnar, umhverfismál og náttúruvernd.
*Veita stjórnvöldum og framkvæmdaaðilum gagnrýnið aðhald.
* Stuðla að viðhaldi þekkingar á menningarminjum og sögu svæðisins
* Fylgjast með hvers konar vá sem náttúru og umhverfi er búin af mannlegum inngripum og vekja athygli á henni
* Vera vettvangur fyrir umræðu og ályktanir um náttúru- og umhverfismál

4. gr.
Aðild að samtökunum er tvenns konar, félagar og hollvinir.
*Félagar skulu vera þeir lögráða einstaklingar sem þess óska.
*Félög, fyrirtæki og stofnanir geta gerst hollvinir samtakanna.
*Ekki verða rukkuð árgjöld en hægt er að styðja við starfssemina með frjálsum framlögum.
*Ritari heldur skrá yfir félaga og hollvini.
*Atkvæðarétt hafa fullgildir félagar samtakanna.
*Stofnfélagar teljast þeir sem skrá sig í félagið árið 2017 og skrifa undir stofnmarkmið samtakanna.
*Hollvinir eru velkomnir á fundi og viðburði félagsins með málfrelsi og tillögurétt.

5 gr.
Stjórn samtakanna skal skipuð sjö félagsmönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnendum, einnig skal kjósa 2 varamenn.

Formaður er kosinn beint á aðalfundi til eins árs og auk þess sex stjórnarmenn til tveggja ára. Tveir skulu kosnir til vara til eins árs í senn. Stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.

Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til stjórnarfunda. Varamenn skulu ávallt boðaðir á stjórnarfundi en hafa einungis atkvæðarétt komi til forfalla hjá stjórnarmönnum.

6 gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar skulu skoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum reikninga félagsins og liggja frammi á aðalfundi.

7 gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok júlí ár hvert. Stjórn skal boða til aðalfundar með sannanlegum hætti með a.m.k. 4 vikna fyrirvara. Síðara fundarboð með dagskrá og með tillögum til lagabreytinga, sem leggja á fyrir aðalfund, skal senda félagsmönnum með tölvupósti eða öðrum hætti með eigi minna en einnar viku fyrirvara. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

* Kosning fundarstjóra og fundarritara
* Skýrsla stjórnar lögð fram
* Reikningar lagðir fram til samþykktar
* Lagabreytingar
* Kosning stjórnarformanns
* Kosning stjórnar (annað hvert ár)
* Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
* Önnur mál

Tillögur til lagabreytinga skulu komnar í hendur stjórnar a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund.

Til að lagabreytingar nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi. Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi öðlast þegar gildi nema annað sé tekið fram.

8. gr.
Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna á milli aðalfunda.

Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn samtakanna álítur þess þörf eða minnst 20% fullgildra félagsmanna óska þess.

Stjórn skal boða til félagsfundar með sannanlegum hætti með a.m.k. tveggja daga fyrirvara.

9. gr.
Ákvörðun um slit samtakanna skal taka á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess til Landverndar eða sambærilegs félags.

10. gr

Ákvæði til bráðabirgða: Á stofnfundi skal kosin bráðabirgðastjórn 3-7 stjórnarmanna sem situr að fyrsta aðalfundi, bráðabirgaðstjórn skiptir með sér verkum.

 

Samþykkt á aðalfundi félagsins 24. ágúst 2019.